Vefstefnur og vægi þeirra fyrir vefstjóra
Lykilorð:
Opinberar stofnanir, Vefstefnur, VefstjórnunÚtdráttur
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna vægi vefstefna fyrir vefstjóra, skoða hvað stefnur þurfa að innihalda til að stuðla að gæðum vefs og bættri notendaupplifun auk þess að meta ábyrgð hins opinbera í vefstefnumótun. Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði þar sem tekin voru djúpviðtöl við þrjá vefstjóra opinberra stofnana og greining framkvæmd á vefstefnum þeirra.
Rannsóknin leiddi í ljós að vefstefnur gegna mikilvægu hlutverki í að styðja við starf vefstjóra, bæta gæði vefja og auka skilning stjórnenda á mikilvægi vefmála og veftengdum kostnaði. Vefstefnur eru taldar nauðsynlegar til að viðhalda fagmennsku, uppfylla kröfur og mæta þörfum notenda. Niðurstöður sýndu að reglulega þarf að endurskoða vefstefnur til að halda í við tækniþróun og breytingar í stafrænu umhverfi. Sem hluti af vefstefnu er efnisstefna einnig mikilvæg til að tryggja faglega upplýsingamiðlun, sérstaklega í ljósi aukinnar notkunar samfélagsmiðla. Þá kemur fram áhersla á mikilvægi aðgengismála, gæði vefsins og góða notendaupplifun.
Niðurstöðurnar benda til þess að hið opinbera beri ábyrgð á að skapa stefnumarkandi ramma sem styður við stafræna umbreytingu og dregur úr hættu á upplýsingaóreiðu. Rannsóknin getur ýtt við stjórnendum og fagfólki varðandi vefstefnumótun og hvatt til áframhaldandi rannsókna og þróunar á þessu sviði. Vefstefna er ekki aðeins nauðsynleg til að leiða stjórnun vefsins, heldur einnig til að tryggja að skipulagsheildir séu meðvitaðar um stafræna þróun. Rannsóknin vekur einnig upp spurningar um framtíðarhlutverk vefstefna og vefstjóra hjá hinu opinbera, sérstaklega í ljósi þróunar í átt að sameiginlegum vettvangi eins og Ísland.is. Frekari rannsókna er þörf til að kanna þessi atriði nánar og fylgjast með áhrifum stafrænnar þróunar á vefmál opinberra stofnana.

Niðurhal
Útgefið
Leyfi
Copyright (c) 2025 Harpa Dögg Kristinsdóttir (Author)

Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution-NonCommercial 4.0 International License).